Skoðun

Yfir­burðir í­halds­seminnar

Sigurður Friðleifsson skrifar

Orkusetur hefur í gegnum tíðina unnið að innleiðingu á orkunýtnari lausnum hjá fyrirtækjum og almenningi. Breytingar fara ekki vel í alla og íhaldssemi getur verið ógnarkraftur sem oft á tíðum er erfitt að eiga við. Mesti vandinn í baráttunni við íhaldssemina er oftast sá, að tækni sem fyrir er á markaði, virðist vera hafin yfir gagnrýni á meðan ný tækni þarf að mæta talsverðri tortryggni og andstöðu. Tökum dæmi:

Glóperur

Þegar betri tækni í formi LED pera var að ryðja sér til rúms, mætti hún gríðarlegri gagnrýni aðallega vegna þess að innkaupakostnaður var hærri. Glóperan, sem fyrir var, þurfti hinsvegar sjaldnast að svara fyrir það að hún var óhagkvæmari lausn, þegar allt var tekið með í dæmið. Glóperan var líka með skelfilega orkunýtni og hafði aðeins brot af þeim endingartíma sem LED pera hefur. Almennur umhverfis- og orkunýtniávinningur af LED perum var svo mikill að Evrópusambandið gafst upp á baráttunni við íhaldssemina og bannaði hreinlega glóperur. Þessi innleiðing sparar nú um 93 TWh sem er tæplega fimm sinnum meira en öll raforkuframleiðsla á Íslandi, sem þó er sú mesta í heiminum á íbúa. Þessi LED innleiðing í Evrópu hefur líka minnkað losun koltvísýrings um 35 milljónir tonna. Það er rúmlega sjö sinnum meira en öll losun á Íslandi sem er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Samt sem áður sitjum við uppi með jafngóða en jafnframt hagkvæmari lýsingu. Ef við byggjum í ljóslausum heimi og glópera og LED perur væri kynntar til leiks á sama tíma, hvað myndum við velja?

Bensín- og dísilbílar

Nú er í boði betri tækni fyrir fólksbíla. Til eru rafbílar sem eru sambærilegir við margar, ekki allar, tegundir af bensín- og dísilbílum. Rafbílar hafa eðlilega verið gagnrýndir fyrir að hafa bara drægi upp á 200-500 km og þurfi því að stoppa í hraðhleðslum fyrir allra lengstu ferðirnar. Þar sem olíuknúnir bílar eru hinsvegar tækni sem fyrir er á markaði þá sleppa þeir oft á tíðum við gagnrýni. Engu virðist skipta þó þeir hafi miklu verri orkunýtni, heildarkostnaður yfirleitt dýrari, þurfi olíuskipti, þurfi mun meira viðhald, hafi minni hröðun, losi heilsuspillandi gufur, þurfi sérstakar bensínstöðvar, noti erlent eldsneyti og losi gróðurhúsalofttegundir. Auðvitað er miklu þægilegra að hunsa alla þessa augljósu galla sem hinir annars ágætu bensín- og dísilbílar hafa og einblína einungis á vankanta rafbílsins sem munu reyndar líklega minnka hratt með meiri drægni og fleiri og öflugri hraðhleðslustöðvum. Gaman væri að ímynda sér hvað myndi gerast ef rafbíll og sambærilegur bensínbíll væru kynntir til sögunnar samtímis í ímynduðu bíllausu nútímasamfélagi og yrðu þar með bornir saman á jafnréttisgrundvelli. Skyldu menn velja að gera samninga um framleiðslu á mengandi og ósjálfbæru eldsneyti við aðrar þjóðir, koma sér upp skipaflutningum og geymslum fyrir olíu, smíða bensínstöðvar og grafa niður tanka út um allt og innleiða vélar sem eru tæknilega verri, meira mengandi og óhagkvæmari? Eða myndu menn jafnvel vera svo djarfir að nýta þá hreinu orku sem fyrir er í samfélaginu og nýta lausn sem er tæknilega betri og býður upp á að hægt sé að hlaða í heimahúsum? Ef sambærilegir bensín- og rafbílar væri kynntir til leiks á sama tíma í bíllausum heimi, hvað myndum við velja?

Urðun

Fyrir tíu árum var tekin í gagnið moltugerðarstöð í Eyjafirði sem tekur við lífrænum úrgangi og breytir honum í hágæða lífrænan áburð með miklum loftslagsávinningi. Þessi eining skapar verðmæti, störf og skýran umhverfisávinning. Þetta hefur gengið vel en auðvitað var þó til staðar íhaldssemi sem gagnrýndi vesen og kostnað við nýtt fyrirkomulag. Gamla fyrirkomulagið var auðvitað gallalaust en það er hin frábæra lausn að keyra allt lífrænt efni á Blönduós og sturta því í holu með tilheyrandi loftslagsáhrifum og án nokkurrar verðmætasköpunar. Ef Helgi Magri væri að nema land í Eyjafirði í dag og þyrfti að velja á milli þessara tveggja úrgangslausna, hvað myndi hann velja?

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×