Sport

Gæti verið sparkað úr risamóti fyrir að tala ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka segir blaðamannafundi eftir leiki auka mikið andlegt álag á íþróttafólk.
Naomi Osaka segir blaðamannafundi eftir leiki auka mikið andlegt álag á íþróttafólk. Getty/Tim Clayton

Stórstjarna úr tennisheiminum hefur verið bæðið sektuð og hótað fari hún ekki að sinna sínum skyldum við blaðamenn.

Naomi Osaka er ein allra besta tenniskona heims en hún er þessa dagana í herferð gegn blaðamannafundum sem hún telur að séu íþróttafólki mjög erfiðir andlega. Það hefur hins vegar afleiðingar með sér að neita að mæta á blaðamannafundi á risamótum í tennis.

Hin japanska Osaka vann sigur á Patriciu Mariu Tig í fyrsta leik sínum á Opna franska meistaramótinu en skrópaði síðan á blaðamannafundinn eins og hún hafði boðað áður á samfélagsmiðlum sínum.

Osaka er tekjuhæsta íþróttakona heims og ætti því að hafa efni á því að borga sektirnar. Hún fékk fimmtán þúsund dollara sekt fyrir þetta fyrsta skróp sitt eða 1,8 milljónir íslenskra króna.

Osaka sendi frá sér sína yfirlýsingu en nú hafa mótshaldarar svarað með sinni yfirlýsingu. Þar er henni hótað brottrekstri úr mótinu haldi hún áfram að neita að mæta á blaðamannafundi eftir leiki sína.

Osaka svaraði með því að tvíta: Reiði er skortur á skilningi. Breytingar eru óþægilegar fyrir fólk. Það er því ekki að heyra annað en að hún ætli að halda sinni herferð áfram.

Naomi hefur fengið hrós fyrir að berjast fyrir annað andlegri heilsu íþróttafólks þar sem hún hefur bæði peninga og áhrif til að ná einhverju fram. Hún hefur líka verið gagnrýnd fyrir það að taka þessa ákvörðun án þess að tala áður við mótshaldara en þá sem ráða í tennisheiminum til að finna lausn.

Næsti leikur Naomi Osaka er á móti annarri rúmenskri tenniskonu en sú heitir Ana Bogdan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×