Tilkynnt var um þjófnað rétt fyrir klukkan sjö á bensínstöð í Breiðholti í gærkvöldi. Konan hnuplaði eldsneyti og öðrum vörum af bensínstöðinni og veittist síðan að starfsmanni stöðvarinnar. Hún var farin af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn en hún var handtekin síðar.
Þá var tilkynnt um annað, yfirstandandi innbrot í verslun í Hlíðunum rétt fyrir klukkan fjögur í nótt. Tveir menn sáust spenna upp hurð og stela rafmagnshlaupahjólum. Mennirnir náðust ekki og er málið í rannsókn.
Rúta og bifhjól lentu í árekstri á Kringlumýrarbraut á tíunda tímanum í gærkvöldi. Hjólið er mikið skemmt og einn var fluttur með sjúkrabíl af vettvangi, hann er þó ekki sagður alvarlega slasaður.
Bíl var stolið úr bílasölu í Breiðholti á sjötta tímanum í gærkvöldi en bifreiðin var síðan stöðvuð rétt fyrir miðnætti. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur án réttinda, vörslu fíkniefna og innbrot. Ökumaðurinn var vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.
Ökumaður var þá handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Málið er til rannsóknar og var maðurinn vistaður í fangageymslu.
Tíu til viðbótar voru stöðvaðir grunaðir undir akstur undir áhrifum og/eða án ökuréttinda.