Mikael Uhre kom Bröndby yfir strax á 5. mínútu en sex mínútum síðar fékk Hjörtur dæmda á sig vítaspyrnu. Sem betur fer fyrir Hjört og Bröndby fór hún forgörðum.
Jón Dagur nældi sér í gult spjald á 18. mínútu og á 35. mínútu fékk Morten Frendrup sitt annað gula spjald í liði Bröndby og gestirnir því manni færri.

Patrick Olsen jafnaði svo metin á 38. mínútu leiksins þegar heimamenn fengu sína aðra vítaspyrnu. Staðan 1-1 í hálfleik en Hirti var kippt af velli áður en síðari hálfleikur hófst.
Uhre reyndist hetja dagsins en hann skoraði sigurmark leiksins á 73. mínútu leiksins og tryggði Bröndby mikilvægan sigur í baráttunni um meistaratitilinn. Liðið er nú komið í toppsæti deildarinnar með stigi meira en Midtjylland sem er í öðru sæti.