Skoðun

Hvaða for­sendurnar þarf til að skima eftir mögu­legri hættu eða at­burðar­rás sem gæti leitt til of­beldis á barni?

Sigríður Björnsdóttir skrifar

Frétta - og vefmiðlar loga enn og aftur af mikilvægri og þarfri umræðu um kynferðisofbeldi og trúverðugleika þolenda við tilkynningar eða kærur sem lagðar eru fram í kjölfar ofbeldis. Sumir af þeim voru börn þegar þau urðu fyrir slíku ofbeldi. Það er ekki sársaukalaust að lesa þessar sögur en þær gefa von um að fólk sjái réttari mynd af þessari “ósamþykktu” umræðu í íslensku samfélagi eins og annars staðar í heiminum. 

Í ljósi aukinnar umræðu í samfélaginu um kynferðisofbeldi er ágætt að minna sig á staðreyndir málsins. Á Íslandi verða 17-36 % barna undir 18 ára aldri fyrir kynferðisáreitni eða ofbeldi. Þessir einstaklingar eru í meiri hættu á að verða fyrir því endurtekið seinna á lífsleiðinni. Því er mikilvægt að trúa þeim sem stíga fram og segja frá reynslu af slíku ofbeldi. 

Til þess að gera íslensku samfélagi kleift að sættast á og trúa að fólk sem við þekkjum, jafnvel mjög vel, er fært um að beita ofbeldi, brjóta gegn börnum eða nauðga, þá er nauðsynlegt að byrja á því að trúa einstaklingum sem stíga fram og segja frá ofbeldinu sem þau verða fyrir. Eins og dæmin sanna segir stétt og staða fólks ekki til um það hvort aðili geti beitt ofbeldi eða ekki. 

Barnaheill, Save the Children á Íslandi hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í sínu starfi og vinna meðal annars að því að fyrirbyggja allt ofbeldi á börnum. Eitt af verkefnum Barnaheilla, Verndarar barna, snýr að því mikilvæga hlutverki að fyrirbyggja kynferðisofbeldi á börnum. Fagfólk og sérfræðingar með áratuga reynslu af forvörnum gegn kynferðisofbeldi vinna að því að fræða starfsfólk sem starfar með og fyrir börn. Hluti af þeirri fræðslu er að þekkja einkenni og afleiðingar kynferðisofbeldis. Það er gert til að styrkja grunnþekkingu á hegðun og vanlíðan sem oft fylgir í kjölfar ofbeldisins og eykur líkur á tilkynningum til Barnarverndarnefnda. Starfsfólk Barnaheilla svara einnig kalli frá skólum landsins sem hafa í gegnum árin óskað eftir fræðslu til unglinga um kynferðisofbeldi. Rætt er við ungmennin um samskipti og að setja mörk, skilgreiningar á kynferðisofbeldi og að segja frá ef þörf er á því. Stuðst er við spjall, myndefni og valdeflandi leiki sem er mikið notað í félagsmiðstöðvum landsins. 

Mikilvægasti þátturinn er að fyrirbyggja ofbeldið. Við vitum að það er ekki hægt að koma í veg fyrir allt ofbeldi á börnum og ekki eru til neinar töfralausnir við því. Með forvörnum höfum við hins vegar áhrif á hugarfar fólks og viðmið og gerum það sem við getum til að fræða um og draga úr kynferðisofbeldi og auka tilkynningar. 

Staðreyndir málsins eru skýrar og við þurfum að átta okkur á að börn á Íslandi verða fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur. 

Meðvitað og áfallamiðað samfélag fækkar áhættuþáttum og byggir upp fleiri verndandi þætti bæði hjá þeim sem mögulega brjóta gegn börnum (börnum, unglingum sem sýna óæskilega kynferðislega hegðun og fullorðnum) og hjá þeim sem mögulega er brotið gegn (börnum, unglingum og fullorðnum) og fjölskyldum þeirra.

Þegar við horfum á forvarnir gegn kynferðisofbeldi þarf að skoða rót vandans áður en ofbeldið á sér stað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er yfirleitt langur vegur frá því að ofbeldi hefst þar til barn segir frá. Á sama hátt er yfirleitt langur vegur frá því að einstaklingur sýnir óæskilega hegðun og er stoppaður af. Það er hægt að minnka skaðann og um það snúast forvarnir, fækka þeim sem lenda í slíku. Við fáum ekki sjálfkrafa þekkingu á því að verða gott foreldri við það að verða foreldri, nema að við sækjum okkur viðeigandi foreldrafræðslu. 

Við höfum ekki forsendurnar til að skima eftir mögulegri hættu eða atburðarrás sem gæti leitt til ofbeldis á barni nema að fá viðeigandi þjálfun. Forvarnaþjálfun gegn kynferðisofbeldi býður upp á ákveðnar leiðir sem eru framkvæmanlegar og við förum að sjá umhverfi barna í öðru ljósi. Við stígum fyrr inn í atburðarrás og setjum fólki mörk í kringum börnin okkar þangað til þau geta það sjálf og læra að þau hafa eitthvað um það að segja og vita að það er hægt að fá hjálp fyrr. 

Við hvetjum foreldra að setjast niður með börnum sínum og fræða þau um það sem þau eru nú að lesa í fjölmiðlum og sjá í sjónvarpinu. Þarna eru líka börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og líður illa að lesa um sögur annarra. Hvetjum til málefnalegrar umræðu og ræðum við börnin okkar svo þau óttist ekki umhverfi sitt sem á að vera nærandi og styðjandi á sem mestan hátt. Nánari upplýsingar og fræðsluefni má vinna á vef samtakanna á www.barnaheill.is

Höfundur er sálfræðingur og verkefnastjóri Barnaheill.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×