Sport

Dagbjört Dögg: Þetta var harka frá upphafi leiks

Andri Már Eggertsson skrifar
Dagbjört var ánægð með sigurinn í kvöld
Dagbjört var ánægð með sigurinn í kvöld Vísir/Bára

Deildarmeistarar Vals unnu annan leikinn í seríunni á móti Fjölni í kvöld. Leikurinn var jafn framan af leik en góður endasprettur Vals varð til þess að þær unnu 76 - 83. Dagbjört Dögg Karlsdóttir leikmaður Vals gerði 8 stig í leiknum og var kát með sigurinn. 

„Þetta var harka frá upphafi leiks. Þetta er úrslitakeppnin, bæði lið sýndu baráttu og var leikurinn járn í járn," sagði Dagbjört sátt með sigurinn.

„Ég var ánægð með hvernig við héldum haus í kvöld, það voru læti á pöllunum ásamt því féll ekki allt okkar megin og er ég því mjög sátt með hvernig við héldum áfram og kláruðum þetta." 

Leikurinn var jafn lengst af leik. Valur voru lengi í bílstjórasætinu en Fjölnir gerði vel í að koma ítrekað til baka og gera þetta af leik en karakter í liði Vals kláraði þetta að lokum.

„Mér finnst við verða að stoppa þær varnarlega talsvert oftar, ef við ætlum að vinna næsta leik getum við ekki farið í annan leik þar sem liðin skiptast á körfum heldur verðum við að spila betri vörn á köflum." 

Dagbjört var ánægð með Valsliðið í 4. leikhluta þar sem þær gáfu ekkert eftir og kláruðu leikinn með sigri. 

„Sjálfstraustið í liðinu í 4. leikhluta var það sem fór langt með sigurinn í kvöld, við hikuðum hvergi undir lok leiks sem varð til þess að við unnum leikinn." 

Dagbjört setur pressu á sjálfan sig að stoppa Ariel Hearn leikmann Fjölnis sem gerði 26 stig í kvöld og ætlar sér að spila enn betri vörn á hana í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×