Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Vesturlands sem hafði fallist á kröfur Pressunnar ehf. um að veðsetningum á eignum félagsins, sem gerðar voru með lánasamningi milli Pressunnar ehf. og Björns Inga auk tryggingabréfs, yrði rift.
Um var að ræða allsherjarveð í Pressunni, auk vörumerkjanna og vefsíðanna Eyjan.is, Bleikt.is, 433.is, sem og útgáfurétt Pressunnar. Þá var þess krafist að yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem tók yfir miðla Pressunnar skömmu áður en félagið fór í gjaldþrot árið 2017, á 80 milljóna skuld Björns Inga við Pressuna yrði rift. Héraðsdómur og Landsréttur féllust einnig á það.
Pressan ehf. rak útgáfustarfsemi á áðurnefndum vefsíðum og átti hlut í dagblaðinu DV. Björn Ingi var einn stofnenda Pressunnar ehf. og stjórnarformaður félagsins frá stofnun þess og þar til í desember 2017.
Björn Ingi þarf auk milljónanna áttatíu að greiða þrotabúi Pressunnar eina milljón til viðbótar í málskostnað fyrir Landsrétti. Dómurinn verður birtur á vef Landsréttar síðdegis.