Skoðun

Fyrir sterkara og loftslagsþolnara samfélag

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Loftslagsvá nútímans kallar á fjölbreyttar aðgerðir. Engin ein lausn mun duga til heldur þarf samstillt átak á öllum sviðum samfélagsins. Fyrst og fremst þarf að draga úr losun - og það hratt, en svo er ekki síður mikilvægt að binda það umframkolefni sem þegar er komið út í andrúmsloftið. Minni losun gróðurhúsalofttegunda og aukin kolefnisbinding eru dæmi um mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og í þær hafa íslensk stjórnvöld fyrst og fremst beint kröftum sínum hingað til.

Við höfum t.d. sett af stað fjölda fjármagnaðra aðgerða til þess að draga úr losun og aukið til muna umfang skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Niðurdæling koldíoxíðs á vegum Carbfix er líka dæmi um afar mikilvægar mótvægisaðgerðir sem trúlega munu sækja í sig veðrið á komandi árum, ekki bara hér á landi. Búast má við að fleiri verkefnum á sviði föngunar koldíoxíðs úr andrúmslofti verði hleypt af stokkunum. Nýjustu tölur um losun á beinni ábyrgð Íslands sýna að samdráttur í losun er hafinn , þótt ljóst sé að samdrátturinn þurfi að verða mun hraðari á næstu árum. Þar þurfa allir að leggjast á eitt; stjórnvöld, atvinnulífið og einstaklingar.

En svo er það hin hliðin á peningnum, en hún snýr að aðlögun samfélagsins og innviða þess að breytingum sem óhjákvæmilega munu verða. Breytingum sem við munum ekki geta komið í veg fyrir með mótvægisaðgerðum. Aukin úrkomuákefð, hætta á skriðuföllum, hækkun sjávarborðs og súrnun og hlýnun sjávar. Allt eru þetta dæmi um áhrif loftslagsbreytinga sem við verðum að bregðast við. Náttúrufarslegar breytingar leiða síðan af sér samfélagslegar breytingar. Við þurfum ekki síður að búa okkur undir þær og kappkosta að þær komi ekki harðar niður á sumum þjóðfélagshópum umfram aðra. Við þurfum í stuttu máli að búa okkur undir breyttan heim og efla viðnámsþrótt samfélagsins.

Aðlögun sett á dagskrá

Við byggjum á góðum grunni. Við eigum fært vísindafólk og erum illu heilli, alvön að bregðast við náttúruvá. Þótt við séum skemmra á veg komin í aðlögunarmálum en nágrannalöndin munu brátt liggja fyrir drög að fyrstu aðlögunarstefnu Íslands. Stefnan verður undanfari aðlögunaráætlunar stjórnvalda.

Í nýliðinni viku var tilkynnt um nýja skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, en hún verður nokkurskonar heimili fyrir skipulagningu aðlögunarmála í samfélaginu – samstarfsvettvangur fagstofnana, hagaðila og vísindasamfélagsins.

Grundvöllur réttra viðbragða er að við höfum aðgang að upplýsingum og góðan skilning á því sem er að gerast í umhverfi okkar. Þar mun ný skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar gegna lykilhlutverki.

Lágmörkum samfélagslegan skaða

Árið sem leið og fyrstu mánuðir nýs árs hafa sýnt okkur mikilvægi þess að við séum vel undirbúin og vel á verði. Rigningar, skriður, skjálftar og eldsumbrot, í bland við farsótt, hafa skapað krefjandi aðstæður og valdið mörgu fólki margvíslegu tjóni.

Eins og gefur að skilja er aðlögun að loftslagsbreytingum gríðar víðfeðmur málaflokkur og í raun hugsanagangur sem samfélagið í heild þarf að tileinka sér á næstu árum. Það eru ótal afleidd samfélagsleg áhrif og margskonar mögulegt tjón. En aðgerðir til aðlögunar geta einnig búið til ný störf og ef rétt er á málum haldið eiga þær að skapa okkur sterkari innviði og loftslagsþolnara samfélag en ella, þar sem áhætta á samfélagslegum skaða vegna áhrifa loftslagsbreytinga er lágmörkuð.




Skoðun

Sjá meira


×