Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu heimamenn í Silkeborg tvö mörk um miðbik síðari hálfleiks og tryggðu sér 2-0 sigur. Skömmu áður en fyrra markið kom fékk Rodolph Austin sitt annað gula spjald í liði gestanna og þar með rautt.
Það nýttu heimamenn sér og unnu eins og áður sagði 2-0 sigur.
Patrik Sigurður Gunnarsson var á sínum stað í marki Silkeborg og hélt enn á ný marki sínu hreinu. Hann er að eiga ótrúlegt tímabil en hann var á láni hjá Viborg fyrri hluta þess og Silkeborg síðari hlutann. Bæði lið stefna hraðbyr upp í dönsku úrvalsdeildina og Patrik Sigurður varla tapað leik né fengið á sig á mark.
Kjartan Henry Finnbogason var í byrjunarliði Esbjerg en náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Andri Rúnar Bjarnason sat allan tímann á varamannabekk liðsins en Ólafur Kristjánsson er sem fyrr þjálfari þess. Þá var Stefán Teitur Þórðarson fjarri góðu gamni hjá Silkeborg.
Sigur Silkeborg þýðir að liðið er nú í 1. sæti toppriðils dönsku B-deildarinnar. Þar á eftir kemur Viborg með leik til góða sem þýðir að það getur náð toppsætinu að nýju og svo Esbjerg, tíu stigum á eftir Silkeborg.
Aðeins eru fjórir leikir eftir og tólf stig í pottinum. Það virðist því nær öruggt að Silkeborg og Viborg leiki í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.