Handbolti

Halldór: Veit ekki hvort við vorum að spara okkur fyrir heimferðina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frammistaða Þórsara olli Halldóri Erni Tryggvasyni, þjálfara liðsins, miklum vonbrigðum.
Frammistaða Þórsara olli Halldóri Erni Tryggvasyni, þjálfara liðsins, miklum vonbrigðum. vísir/vilhelm

Þórsarar sóttu ekki gull í greipar Frammara í kvöld og töpuðu með tólf marka mun, 31-19. Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, var afar ósáttur við frammistöðu sinna manna í leiknum.

„Þetta var hræðilegt af okkar hálfu. Við gáfumst upp í fyrri hálfleik þegar við fengum á okkur nokkur hraðaupphlaup. Ég veit hvað þetta er, andlegt, eða hvort menn séu búnir. Ég veit ekki hvað þetta er,“ sagði Halldór við Vísi eftir leik.

Þórsarar eiga enn möguleika á að bjarga sér frá falli. Halldór er svekktur að hans menn hafi ekki gefið meira í leikinn í kvöld og sýnt vilja til að halda sér á lífi í Olís-deildinni.

„Þetta er fullur möguleiki og við höfum fulla trú á þessu. Þeir segja það og frá mínu hjarta. Það var eins og við værum að spara okkur í dag. Ég veit ekki hvort við vorum að spara okkur fyrir heimferðina. Ég er drullusvekktur,“ sagði Halldór.

Eftir jafnar upphafsmínútur skoraði Fram sex mörk í röð um miðbik fyrri hálfleiks og leit ekki um öxl eftir það.

„Ég veit ekki hvað gerðist. Við koðnuðum niður og hættum að þora. Það er það eina sem ég bið drengina um að gera, að sýna lit á vellinum og hafa gaman að þessu,“ sagði Halldór. Honum fannst Þórsarar ekki líklegir til að koma til baka í kvöld.

„Í rauninni ekki. Frammarar gerðu vel. Við reyndum að fara í sjö á sex, gera nýja hluti og skipta um menn í varnarleiknum en við vorum ekki líklegir.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×