Handhafar Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi þetta árið voru Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri í flokki yfirstjórnenda, Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafasviðs Sjóvár í flokki frumkvöðla og Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri Strætó í flokki millistjórnenda.
Dómnefnd veitti einnig þremur frumkvöðlum sem vakið hafa eftirtekt fyrir störf sín á heilbrigðissviði undanfarin misseri viðurkenninguna Frumkvöðlar ársins 2021, að því er fram kemur í tilkynningu. Eru það þeir Tryggvi Þorgeirsson, stofnandi og forstjóri SideKick Health, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og Gísli Herjólfsson, stofnandi og forstjóri Controlant.
Sérstök heiðursverðlaun voru veitt Guðmundi Þorbjörnssyni, framkvæmdastjóra Eflu fyrir framlag sitt til stjórnunar á Íslandi. Einnig var Davíð Lúðvíksson, sérfræðingur á rannsóknar-og nýsköpunarsviði Rannís útnefndur og verðlaunaður heiðursfélagi Stjórnvísi 2021.
Horfa má á verðlaunaafhendinguna í spilaranum hér fyrir neðan.
Að sögn Stjórnvísi er markmið Stjórnunarverðlaunanna að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda, örva umræðu um faglega stjórnun og hvetja félagsmenn til að auka þekkingu sína, hæfni og færni sem stjórnendur.
Dómnefnd 2021 skipuðu eftirtaldir:
Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Hugverkastofunnar.
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Viss ehf.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Festi og fyrrverandi forstjóri Icepharma hf.
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.