Höttur heimsækir Njarðvík í Ljónagryfjuna í kvöld og þarf nauðsynlega á sigri að halda ætli liðið að halda sæti sínu í Domino´s deild karla í körfubolta. Heimamenn í Njarðvík gætu verið í erfiðum málum tapi þeir þessum mikilvæga leik.
Njarðvíkingar eru á óvenjulegum slóðum í karlakörfunni enda að berjast fyrir lífi sínu í deildinni í stað þess að berjast fyrir góðum stað inn í úrslitakeppnina. Sigur í fyrsta leik eftir stopp gefur Njarðvíkurliðinu von um bjartari daga framundan en það breytir samt ekki miklu um mikilvægi leiksins í kvöld.
Leikurinn á móti Hetti á heimavelli í kvöld gæti farið langt með að bjarga liðinu frá falli en tap gæti sökkt Njarðvíkingum aftur á bólakaf í ólgusjó fallbaráttunnar.
Njarðvík er með tólf stig, tveimur meira en Haukar og fjórum stigum meira en Höttur. Hattarmenn yrðu sex stigum á eftir Njarðvík tapi þeir leiknum í kvöld.
Höttur er komið á botn deildarinnar eftir fimm töp í röð og á sama tíma tvo Haukasigra í röð. Hattarmenn verða bara að vinna í kvöld en þeir hafa aldrei unnið Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni í efstu deild.
Næst komust þeir að vinna í Njarðvík í fyrstu umferðinni tímabilið 2015-16 en Njarðvík hafði þá betur í framlengingu.
Hattarmenn unnu aftur á móti fyrri leik liðanna á Egilsstöðum í vetur (88-83) og fá því ekki aðeins tvö stig með sigri í kvöld heldur einnig betri innbyrðis stöðu á móti Njarðvík.
Þar sem Njarðvíkingar eru einnig undir innbyrðis á móti Haukum þá myndi tap í kvöld þýða að það nægði bæði Hetti og Haukum að jafna Njarðvíkinga að stigum.
Leikur Njarðvíkur og Hattar hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport frá klukkan 19.00. Strax á eftir verður síðan Dominos Körfuboltakvöld þar sem Kjartan Atli Kjartansson og félagar munu gera upp alla átjándu umferðina.
Innbyrðis staðan hjá neðstu liðunum þremur:
- Stigin: Njarðvík 12, Haukar 10, Höttur 8.
- Höttur: 2-0 og +11
- 1-0 á móti Njarðvík (+5)
- 1-0 á móti Haukum (+6)
- Haukar: 2-1 og +7
- 2-0 á móti Njarðvík (+13)
- 0-1 á móti Hetti (-6)
- Njarðvík: 0-3 og -18
- 0-2 á móti Haukum (-13)
- 0-1 á móti Hetti (-5)

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.