Kristianstad var með bakið upp við vegg fyrir leik dagsins eftir sigur Skövde í fyrstu tveimur leikjum rimmunnar. Skövde var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náði þar mest fimm marka forystu en þrjú mörk var munurinn í hálfleik, 15-12.
Kristianstad bitu frá sér eftir hléið, unnu muninn upp og komust á einum tímpunkti 20-19 yfir. Skövde voru þó sterkari á lokakaflanum og unnu eins marks sigur eftir æsispennu, 23-22. Ólafur Andrés Guðmundsson, Teitur Örn Einarsson og félagar þeirra í Kristanstad þurftu því að játa sig sigraða og eru úr leik.