„Ég hef skrifað mikið af greinum í gegnum árin. Meðal annars um Kínverja, kvartað undan sendiráðshúsinu og allt í kringum það – sóðaskapnum þar og vildi losna við hann. Sem tókst á endanum. Síðan um kínverska ferðamenn og aðallega seinna um kínversku veiruna; Covid-19. Ég var að halda því fram að þetta hefði orðið til hjá þeim fyrir sóðaskap í Wuhan á blautmörkuðunum, kæmi úr leðurblökunum og í matvöruna þar og svo framvegis,“ segir Jónas.
Hann segist fyrst hafa frétt af málinu þegar hann fékk símtal frá utanríkisráðuneytinu þar sem hann var boðaður á fund. Hann hafi í fyrstu ekki haft hugmynd um hvað málið varðaði. „Þá fékk ég að vita að það að ég sé kominn á svartan lista og sé þar einn á blaði.“
Hefur engin áhrif
„Ég var alveg steinhissa, að ég væri svona merkilegur að þeir nenntu að standa í þessu, en ég tók þessu bara vel. Auðvitað er það alvaran í þessu að það er verið að skipta sér af málfrelsi og tjáningarfrelsi á Íslandi, þetta erlenda stórríki. Það er það alvarlega, það kemur þeim ekkert við,“ segir Jónas.
Hann segir veru sína á listanum ekki setja neinar áætlanir í uppnám, enda hafi hann ekki stefnt á ferðalög til Kína. Sjálfur hafi hann ekkert heyrt frá kínverska sendiráðinu eða sendiherranum sjálfum en hann segir þessa aðferð vel þekkta.
„Þetta er svona stöðluð aðferð sem er notuð erlendis, þar sem fólk er í viðskiptum við Kínverja, vinna þar eða eru háðir þeim með peninga og annað – bönkunum og þess háttar. En fyrir mig, ekki fer ég til Kína og ekki á ég neina peninga í Kína eða neitt,“ segir hann og bætir við að honum þyki þetta hálf klaufalegt.
„Ef þeir vildu koma höggi á mig hefðu þeir getað staðið sig örugglega miklu betur.“
Úr því sem komið er vonar hann að hann fái að vera á listanum. „Fyrst ég er kominn á hann og hafði heilmikið fyrir því.“