Ummælin lét Gao Fu, forstöðumaður Sóttvarnastofnunar Kína, falla á ráðstefnu í borginni Chengdu í suðvesturhluta Kína í gær, að sögn AP-fréttastofunnar. Fátítt er að kínversk yfirvöld gangist við veikleikum sem þessum.
Yfirvöld í Peking hafa til þessa dreift hundruð milljónum skammta af kínverskum bóluefnum til annarra landa og hafa auk þess reynt að grafa undan trú á bóluefnum vestrænna ríkja. Engin vestræn bóluefni hafa fengið markaðsleyfi í Kína til þessa.
Sinovac, eitt kínversku bóluefnanna, reyndist aðeins hafa 50,4% virkni í að koma í veg fyrir smit með einkennum í rannsókn sem var gerð í Brasilíu. Til samanburðar er bóluefni Pfizer talið hafa 97% virkni. Kínverskir ríkisfjölmiðlar hafa ítrekað sett spurningamerki við virkni Pfizer-bóluefnisins og öryggi þess.
„Það er nú til formlegrar íhugunar hvort að við ættum að nota mismunandi bóluefni úr mismundandi framleiðslu við bólusetningar“ sagði Gao.
Í byrjun þessa mánaðar höfðu 34 milljónir manna fengið tvo skammta af kínverskum bóluefnum og 65 milljónir höfðu fengið fyrri skammt.
Sérfræðingar telja hugsanlega að auka virkni bólusetninga með því að blanda saman ólíkum bóluefnum. Í Bretlandi rannsaka vísindamenn meðal annars möguleikann á að gefa bóluefni Pfizer og AstraZeneca saman.
Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gagnrýndi mikla misskiptingu í aðgengi að bóluefni í heiminum. Um einn af hverjum fjórum íbúum ríkra landa hafa nú verið bólusettir en aðeins einn af hverjum fimm hundruð í þróunarríkjum. Þá hefur afhending á bóluefni til snauðustu ríkja heims nær stöðvast undanfarna daga. Talað er um að þau ríki gætu því þurft að leita á náðir Kínverja eða Rússa um bóluefni.