Keypti hann talsvert af þeim tæplega 10% eignarhlut sem vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi í Arion banka í mars. Markaðurinn greinir frá þessu en Reynir seldi nýlega um helming af 70% hlut sínum í Creditinfo til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leitchman Capital. Áætlað er að virði hlutarins sem Reynir seldi geti verið allt að tíu milljarðar króna.
Reynir á nú um 0,5% hlut í Arion banka gegnum félagið InfoCapital sem þýðir að hann er á meðal stærri einkafjárfesta í bankanum.
Erlendir fjárfestar minnkað verulega við sig
Miklar breytingar hafa orðið á eignarhaldi bankans að undanförnu en fram kemur í frétt Markaðsins að eignarhaldsfélög og ýmsir fjársterkir einstaklingar hafi keypt meirihluta bréfanna af Taconic Capital.
Vogunarsjóðurinn var lengi stærsti hluthafi Arion banka með nærri fjórðungshlut en gekk frá sölu á síðustu bréfum sínum þann 29. mars fyrir tæplega 20 milljarða króna.
Síðan þá hafa íslenskir lífeyrissjóðir, meðal annars LSR og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, og verðbréfasjóðir samanlagt bætt við sig um 3% hlut í bankanum.
Eignarhlutur erlendra fjárfesta í Arion banka hefur minnkað hratt á skömmum tíma en samanlagður hlutur Taconic og Sculptor Capital í bankanum nam um 50% í ársbyrjun 2020. Fram kemur í samantekt Markaðarins að erlendir fjárfestar eigi nú vel undir 5% bréfa í Arion banka.