Í svari Braga Reynissonar, öryggisstjóra RÚV og yfirmanns útsendingarinnar, kemur fram að færst hafi í aukana að fólk stilli sér upp fyrir framan vefmyndavélina sem komið hefur verið upp við gosstöðvarnar. Það komi í veg fyrir að fólk heima í stofu geti fylgst með því sem fyrir augu ber.
„Nú um hádegisbil voru aðilar búnir að reka niður skilti fyrir framan vélina og því var ekki frá neinu eldgosi að sýna, því tókum við þá tæknilegu ákvörðun að taka myndina úr loftinu. Við fengum í kjölfarið aðstoð björgunarsveita við að fjarlægja skiltið svo gosið sæist aftur frá vélinni,“ segir í svari til fréttastofu.
Útsendingin lá niðri í um það bil sjö mínútur, með örstuttu hléi þar sem skiltið sást aftur.

Þá segir að einkar erfitt sé að ganga frá vélinni á fjallstoppi þannig að ekkert byrgi sýn og myndin sé stöðug á sama tíma. Ekki stendur til að setja öryggisvakt við vélina.
„Við vonum því sannarlega að við getum haldið áfram þessum beinu útsendingum en hikum ekki við að taka streymi úr loftinu ef ekkert eldgos er lengur að sjá.“
Hér að neðan má sjá beint streymi RÚV frá Geldingadölum.