Nýju ráðstafanirnar kveða á um að öll þau sem koma til Íslands frá dökkrauðum löndum, þ.e. löndum þar sem 14 daga nýgengi COVID-19 smita er yfir 500 á hverja 100.000 íbúa, skulu dvelja í húsnæði á vegum stjórnvalda meðan á sóttkví eða einangrun stendur.
Von er á sex flugvélum til landsins á fimmtudaginn, daginn sem reglurnar taka gildi. Þeirra á meðal eru flug frá Hollandi og Póllandi sem eru dökkrauð lönd. Því má reikna með nokkrum fjölda gesta á sóttkvíarhótelið í Þórunnartúni.
Stjórnvöld hafa birt lista yfir þau lönd sem eru dökkrauð eða grá miðað við þriðjudaginn 30. mars 2021.
Evrópa innan EES
- Belgía
- Búlgaría
- Eistland
- Frakkland
- Holland
- Ítalía
- Kýpur
- Liechtenstein
- Malta
- Noregur
- Pólland
- Rúmenía
- Spánn
- Slóvakía
- Slóvenía
- Svíþjóð
- Tékkland
- Ungverjaland
Evrópa utan EES
- Andorra
- Kósovó
- Moldóva
- Norður Makedónía
- San Marínó
- Serbía
- Svartfjallaland
Afríka
- Kamerún
- Tansanía
- Vestur Sahara
- Seychelles eyjar
Ameríkur
- Bonaire, Sint Eustatius og Saba
- Curaçao
- Arúba
- Úrúgvæ
Asía
- Norður Kórea
- Tadsíkistan
- Túrkmenistan
- Jórdanía
- Líbanon
- Palestína
- Barein
Eyjaálfa
- Aðrar franskar Kyrrahafseyjar
„Það að stjórnvöld óski eftir að Rauði krossinn hafi umsjón með hinu nýja sóttkvíarhóteli er skýr staðfesting á góðum árangri okkar undanfarið ár,“ segir segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
„Vegferðin til þessa hefur sannarlega verið krefjandi og full af óvissu, enda opnuðum við farsóttarhúsið á Rauðarárstíg upphaflega til þriggja mánaða eða svo, en ári síðar erum við hér enn – reynslunni ríkari. Þessi dýrmæta reynsla mun nýtast okkur áfram í þeim áskorunum sem sannarlega munu fylgja opnun nýrra úrræða og móttöku enn fleiri gesta en áður.“

Frá því snemma árs 2020 hefur Rauði krossinn haft umsjón með farsóttarhúsum við Rauðarárstíg í Reykjavík, á Akureyri og víðar. Frá og með 1. apríl mun Fosshótel Reykjavík við Þórunnartún gegna hlutverki sóttkvíarhótels, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands, enda krefjast hinar nýju reglur á landamærum nýrra úrræða.
Rauði krossinn mun hafa umsjón með sóttkvíarhótelinu auk þess sem farsóttarhúsið við Rauðarárstíg verður áfram opið en ekki er útilokað að fleiri sóttkvíarhótel verði opnuð í framhaldinu.

„Erfitt er að áætla þann fjölda gesta sem mun þurfa að dvelja á sóttkvíarhótelum og í farsóttarhúsum á næstu vikum en búast má við sá fjöldi muni skipta hundruðum. Þjálfun nýs starfsfólks Rauða krossins sem mun sinna fjölbreyttum verkefnum þessu tengdu er þegar hafin,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.
Ekki er hægt að panta á sóttkvíarhóteli og munu þau sem þangað fara fá upplýsingar þar að lútandi fyrir komu til landsins. Um farþega frá löndum sem ekki eru á lista sóttvarnalæknis gilda almennar reglur um sóttkví sem má nálgast á covid.is.

Þar má einnig finna upplýsingar um gildandi sóttvarnarreglur en Rauði krossinn mun áfram miðla upplýsingum tengdum faraldri kórónuveirunnar á raudikrossinn.is og á samfélagsmiðlum. Finnir þú fyrir kvíða, einmanaleika eða þunglyndi þá veita Hjálparsíminn 1717 og netspjallið á 1717.is stuðning og ráðgjöf allan sólarhringinn.
„Hjá Rauða krossinum tökum við hlutverk okkar sem mikilvægur hlekkur í almannavörnum landsins mjög alvarlega og nálgumst umsjón farsóttarhúsa og sóttkvíarhótela – eins og öll okkar verkefni – af alúð og virðingu,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
„Þó aðkoma og þrotlaus vinna Rauða krossins í ástandi sem þessu sé tryggð með samkomulagi við stjórnvöld þá er það nú samt svo að án dyggs stuðnings Mannvina, félagsfólks og annarra velunnara væri Rauði krossinn ekki í stakk búinn að bregðast við með þeim snögga og fumlausa hætti sem dæmi undanfarins árs sanna. Fyrir þetta þökkum við af heilum hug en treystum um leið á áframhaldandi stuðning og velvild svo áfram megi bregðast við þegar þörf krefur, með hlutleysi og mannúð að leiðarljósi.“