Skoðun

Hlúum að verð­mæta­sköpun

Svavar Halldórsson skrifar

Töluvert hefur gefið á bátinn í íslensku efnahagslífi vegna kórónuveirufaraldursins sem nú tröllríður heimsbyggðinni. Botninn hefur dottið úr heilu atvinnugreinunum og útflutningur minnkað mikið. Samkvæmt nýlegum tölum hefur viðskiptahalli ekki verið jafn mikill og í fyrra síðan hrunárið 2008. Í slíkum aðstæðum er afskaplega mikilvægt að hlúa að atvinnuskapandi vaxtasprotum og nýsköpun, enda ljóst að auknar útflutningstekjur er skynsamlegasta leiðin til að koma styrkari stoðum undir íslenskt þjóðarbú. Sérstaklega er vert að horfa á greinar eins og líftækni og þau fyrirtæki í þeim geira sem skara fram úr og eru til fyrirmyndar.

Tækifæri í líftækni

Mikil tækifæri eru líftækni á Íslandi. Ekki síst þegar kemur að því að fullvinna eða nýta hliðarafurðir í landbúnaði og sjávarútvegi. Þar nýtist hreinleiki íslenskrar náttúru, hugvit og frumkvöðlakraftur eins og dæmin sanna. Um leið nýtist einnig sú þekking og reynsla úr lyfjageiranum sem hér hefur byggst upp síðustu áratugi. Flest íslensk líftæknifyrirtæki eiga það sammerkt að sækja inn á vel borgandi markaði fyrir afurðir í hæsta gæðaflokki. Þar veitir hreinleiki, íslenskur uppruni og græn orka þeim samkeppnisforskot. Fyrirtækin eiga það líka sameiginlegt að hafa í öndvegi sjónarmið umhverfisverndar og dýravelferðar.

Til fyrirmyndar í dýravelferð

Eitt þessara gjaldeyrisaflandi nýsköpunarfyrirtækja vinnur verðmætt lyfjaefni úr hryssublóði. Í fyrra námu útflutningstekjurnar um einum og hálfum milljarði króna. Um hundrað bændur hafa tekjur af þessari búgrein og um fjörutíu manns starfa hjá fyrirtækinu. Starfsemin er í alla staði til fyrirmyndar. Blóðgjöfin er undir eftirliti dýralækna og Matvælastofnunar. Líftæknifyrirtækið sjálft er undir eftirliti Lyfjastofnunar og vottað af bæði lyfjaeftirlitum Evrópu og Bandaríkjanna, auk þess að vera með alþjóðlega vottun um góða framleiðsluhætti sem viðurkenndur er í lyfjageiranum. Þá er þetta eina afurðafyrirtækið í íslenskum landbúnaði sem gerir sérstaka velferðarsamninga við alla bændur sem það á í viðskiptum við. Það eru vinnubrögð sem aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar.

Höfundur er sérfræðingur í matarmenningu, stefnumótun og markaðsmálum.




Skoðun

Sjá meira


×