Aukin meðvitund og áhersla hefur verið á öryggi notenda stefnumótaþjónusta eins og Tinder undanfarin misseri. Rannsókn ProPublica árið 2019 leiddi í ljós að kynferðisbrotamenn á skrá hjá yfirvöldum notuðu marga ókeypis miðla Match Group, móðurfyrirtæki Tinder, OkCupid, PlentyOfFish og Hinge, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Með því að nota nafn og farsímanúmer mögulegra biðla sinna geta Tinder-notendur leitað að opinberum gögnum og tilkynningum um ofbeldi eða misnotkun, handtökur, sakfellingar, nálgunarbönn, áreitni og aðra ofbeldisglæpi. Ekki verða þó upplýsingar um fíkniefna- eða umferðarlagabrot í gagnabankanum.
Áður hafa stefnumótaforrit eins og Tinder bannað notendur ef þeim berast tilkynningar um ofbeldisbrot. Þau hafa einnig reynt að tryggja öryggi með því að láta notendur staðfesta að myndir séu raunverulega af þeim sjálfum og myndbandssímtöl í forritinu til að sanna að þeir séu þeir sem þeir segjast vera.
Tinder bætti einnig við neyðarhnappi í forritið til að vista upplýsingar um stefnumótið og staðsetningu þess ef notandinn smellti á hann í fyrra.