„Mér fannst hann líka vara lengur heldur en flestir sem ég hef fundið hingað til, en dagurinn í dag er svo sem búinn að vera líflegur frá því um hádegisbil. En þessi síðasti, fimm plús, hann var svæsinn. Hér sveifluðust ljósakrónur og það voru mikil læti og hávaði,“ segir Bergur.
Hann segist hafa heyrt frá nágrönnum sínum að hlutir hafi hrunið úr hillum en ekki af neinum teljanlegum skemmdum. „Í mínu húsi er allt á sínum stað þó einhverjar myndir hafi kannski skekkst, en ekkert tjón sem ég hef heyrt af.“
Saknar þess að ná heilum nætursvefni
Aðspurður segir hann skjálftana aldrei venjast. „Þetta venst aldeilis ekki. Og það sem ég sakna mest undanfarnar vikur er bara að fá heilan nætursvefn. Maður vaknar bara á hverri einustu nóttu. Stundum af því að maður finnur skjálftann og stundum vaknar maður og veit eftir á að það var skjálfti,“ segir Bergur.
„Þetta er bara orðið gott. Það er kannski bara að það fari að gjósa svo maður losni við þessa skjálfta. Ég væri alveg til í það bítti eins og sakir standa í dag.“
Skjálftinn varð klukkan 14.15 um 2,5 kílómetra vestur af Nátthaga. Hann fannst vel á suðvesturhorninu, norður á Sauðárkrók og suður í Vestmannaeyjar. Annar skjálfti fylgdi í kjölfarið, klukkan 14.38 og var samkvæmt fyrsta mati 4 að stærð. Um tvö þúsund skjálftar hafa mælst frá miðnætti.