Samkvæmt lokaniðurstöðu mælinga hjá Veðurstofunni var skjálftinn 5,4 að stærð.
Samkvæmt sömu niðurstöðum átti skjálftinn upptök sín um 2,5 kílómetra vestur af Nátthaga, en enginn órói mældist í kjölfar hans, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Skjálftinn fannst víða samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa hefur fengið, meðal annars á Suðurlandi, í Stykkishólmi og Búðardal. Þá segir í tilkynningu Veðurstofunnar að skjálftinn hafi fundist norður á Sauðárkrók og suður í Vestmannaeyjar.
Tvö þúsund skjálftar það sem af er degi
Annar skjálfti varð klukkan 14:38. Sá var heldur minni, en samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum var hann 4 að stærð.
Alls hafa sjálfvirk mælitæki Veðurstofunnar numið um tvö þúsund jarðskjálfta í dag.
Fréttin hefur verið uppfærð.