Fótbolti

Robert Lewandowski með þrennu í Der Klassiker

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lewandowski hefur verið einn heitasti framherji seinustu ára.
Lewandowski hefur verið einn heitasti framherji seinustu ára. Alex Gottschalk/Getty

Bayern Munich og Borussia Dortmund áttust við í stórleik helgarinnar í þýska boltanum. Niðurstaðan 4-2 sigur heimamanna, en gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins á fyrstu 10 mínútunum.

Dortmund byrjaði leikinn af miklum krafti, en strax á 2.mínútu var Erling Braut Haaland búinn að koma gestunum yfir. Haaland var svo aftur á ferðinni um sjö mínútum seinna þegar hann tvöfaldaði forskot gestanna eftir stoðsendingu frá Thorgan Hazard. 

Fjörið var þó ekki búið í fyrri hálfleik. Robert Lewandowski minnkaði muninn á 26. mínútu leiksins. Lewandowski skoraði svo sitt annað mark á 44. mínútu úr víti eftir að Mahmoud Dahoud hafði brotið á Kingsley Coman.

Bayern menn voru mun sterkari aðilinn í leiknum, þeir voru mun meira með boltann og áttu heil 22 skot gegn fjórum skotum gestanna. Það var þó ekki fyrr en á 88. mínútu sem að heimamenn náðu loksins forystunni. Þar var á ferðinni Leon Goretzka, og sigur Bayern manna yfirvofandi. 

Robert Lewandowski fullkomnaði svo þrennuna á 90. mínútu leiksins og úrslitin ráðin. Með sigrinum fara Bayern menn í 55 stig og lyfta sér aftur upp á topp þýsku úrvalsdeildarinnar. Dortmund eru í sjötta sæti með 39 stig, fjórum stigum á eftir Frankfurt sem sitja í fjórða og seinasta meistaradeildarsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×