Stærsti skjálftinn sem mælst hefur í kvöld var 4,2 að stærð og átti hann upptök sín um tveimur kílómetrum norður af Grindavík, en skjálftinn varð klukkan 19:14.
Um 2.500 jarðskjálftar mældust í gær en í heildina hafa mælst hátt í tuttugu þúsund skjálftar síðan hrinan hófst fyrir um viku síðan. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt en jókst aftur upp úr klukkan fimm í morgun. Frá því á miðnætti í gær og til miðnættis í dag hafa mælst um 3.500 skjálftar, eða um þúsund fleiri en mældust sólarhringinn þar á undan.
Jarðskjálfti af stærð 4.5 mældist kl 08:54 við Fagradalsfjall. Skjálftinn fannst vel á suðvestur horni landsins. Órói...
Posted by Veðurstofa Íslands on Thursday, March 4, 2021
Óróapúls, sem gjarnan er undanfari eldgoss, mældist klukkan 14:20 í gær suður af Keili við Litla-Hrút.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofunni, fór yfir nýjustu upplýsingar í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Að sögn Kristínar er engin merki að finna í nýjustu gögnum um að kvika sé að nálgast yfirborð á Reykjanesi. Aftur á móti er enn óljóst hvort jarðhræringarnar á svæðinu komi til með að líða hjá á næstu dögum eða hvort komi til eldgoss.
Er þá hættan á eldgosi liðin hjá eða eru ennþá líkur á að eldgos muni hefjast?
„Við sjáum engin merki í gögnunum okkar um að kvikan sé að nálgast yfirborð. Þetta er kaflaskipt virkni og við verðum bara að vera undir allt búin, að þetta verði eitthvað langhlaup, að það taki einhverja daga að líða hjá nú eða endi með eldgosi, við bara vitum það ekki,“ svaraði Kristín.
Hér fyrir neðan má sjá vakt Vísis sem hófst í gær þegar óróapúlsinn fór að mælast.
Fréttin hefur verið uppfærð.