Meðlimur Facebook-hópsins Fjármálatips greinir frá því að hann hafi fengið tólf ítrekunarbréf frá bankanum inn um lúguna síðasta þriðjudag. Bréfin hafi verið dagsett frá ágúst fram í febrúar en öll verið póstlögð þann 18. febrúar. Þá kannast fleiri meðlimir hópsins við að hafa nýlega fengið gömul ítrekunarbréf frá bankanum.

Byggt á úreltum upplýsingum
„Það er rétt að það fóru ítrekanir frá okkur sem áttu ekki stoð og við erum að vinna að því að greina hvað fór úrskeiðis og leysa úr því,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs hjá Arion banka, í samtali við Vísi.
Um sé að ræða sjálfvirkar færslur og dæmi um að fólk hafi fengið ítrekanir sem byggðu á úreltum upplýsingum og jafnvel vegna lána sem væri búið að greiða upp.
„Maður skilur nú alveg að fólk klóri sér í kollinum yfir þessu,“ bætir Haraldur við. Ekki liggi fyrir hve margir hafi fengið slíkar sendingar en talið að um sé að ræða frekar lítinn fjölda viðskiptavina sem hlaupi mögulega á hundruðum.