Ástæðan er sú að heimilin og fyrirtækin hafa ekki brunatryggt innbú og lausafé en slík brunatrygging er almennt innifalin í innbús- og heimilistryggingum tryggingafélaganna.
Ekki er lögbundið að brunatryggja innbú og lausafé, líkt og er raunin með húseignina sjálfa, heldur er það valkvætt.
Sé maður hins vegar ekki með slíka brunatryggingu og innbúið verður svo fyrir tjóni, til dæmis í jarðskjálfta, á maður ekki rétt á því að fá tjónið bætt frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
„Reynslan okkar úr atburðum er að það er mjög oft vantryggt eða ótryggt, bæði í litlum og stórum fyrirtækjum, innbú og lausafé og býsna algengt með heimili fólks að þá hefur það ekki gert ráðstafanir varðandi innbús- eða heimilistryggingu, sem bruni er innifalinn í, vegna þess að það er fast í að brunatryggingin sé skylda og því sé allt í góðu lagi,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands.
Eigin áhætta í náttúruhamfaratryggingum nokkuð há
Sé maður með viðeigandi tryggingu fyrir innbúi og lausafé sér tryggingafélagið um að innheimta tiltekið iðgjald sem rennur til Náttúruhamfaratryggingar.
Þá á maður rétt á að fá tjónið bætt en Hulda Ragnheiður bendir á að eigin áhætta í náttúruhamfaratryggingum sé nokkuð há eða 200 þúsund krónur fyrir innbú og 400 þúsund krónur fyrir húseignir.
Hún kveðst ekki vita til þess að svo mikið tjón hafi orðið í skjálftunum sem riðu yfir Reykjanesið í gær en bendir á að í Suðurlandsskjálftanum árið 2008, sem var 6,3 að stærð, hafi orðið mikið tjón á húseignum.
Vísindamenn hafa varað við því að almenningur eigi að vera undir það búinn að stór skjálfti allt að 6,5 geti orðið í Brennisteinsfjöllum sem liggja á milli Kleifarvatns og Bláfjalla.
„Þannig að við vitum alveg að í skjálfta sem er á bilinu 6,3 til 6,5 þá munum við að líkindum sjá verulegt tjón á húsum en þau eru hins vegar almennt ágætlega tryggð vegna skyldutryggingar á þeim,“ segir Hulda Ragnheiður.