Þau Kristín Ósk Matthíasdóttir og Sveinn Viðarsson fluttu af Suðurlandi fyrir sex árum til að taka við býli á Barðaströnd þar sem jarðhiti er nýttur til að ala bleikju. Þau Svein og Kristínu óraði samt ekki fyrir þeim hindrunum sem fylgdu því að jörðin er innan friðlands Vatnsfjarðar.
-En er þá allt þyngra í vöfum af því að þetta er friðland?
„Já, ekki spurning,“ svarar Kristín í fréttum Stöðvar 2.

„Það er búið að gera þetta að kerfisvitleysu. Þetta er orðið rosalega þungt í vöfum að reyna að reka eitthvað í dag í svona umhverfi. Kerfið er orðið svo flókið og snúið að við föttum það ekki, - þekkjum ekki orðið hvernig þetta virkar sjálf. Við erum búin að búa til svo mikla kerfisvitleysu að við skiljum þetta ekki,“ segir Sveinn.
Þau leigðu fyrst íbúðarhús í sveitinni en þegar eigendurnir þurftu það undir eigin fjölskyldu lentu þau á hrakhólum þar sem ekkert annað hús var á lausu í sveitinni. Þau neyddust til að búa í tíu fermetra pallhýsi og vildu því sjálf byggja.
„Við vorum búin að sækja og sækja um leyfi. Það gengur ekki með tvö börn að vera í camper í tíu mánuði, sko. Þetta var ekki forsvaranlegt, sko,“ segir Kristín.
„Við neituðum bara að gefast upp og byggðum húsið,“ segir Sveinn.
Leyfið fékkst svo loksins síðastliðinn föstudag.

Sveinn segist samt ekki ætla að leggjast gegn því að svæðið verði gert að þjóðgarði, eins og núna er áformað.
„Mér er svo sem alveg sama hvað þeir gera. Ég hef ekkert á móti þessu. Þetta er bara fínt. Ég held að það verði bara gaman að þessu. Bara meiri áskorun – áskorun um að hafa snyrtilegt í kringum sig,“ segir Sveinn.
Í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld var fjallað um Barðaströnd en þar hefur börnum snarfjölgað.
„Það var eitt þegar við komum. Nú eru þau tólf,“ segir Kristín.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: