Í gær varð ljóst að lyfjarisinn Pfizer sér sér ekki hag í því að framkvæma bóluefnarannsókn hér á landi. Slík rannsókn hefði falið í sér að landsmenn hefðu verið bólusettir fyrr en ella. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það alltaf hafa legið fyrir að þetta gæti farið í hvora áttina sem er enda hafi ekkert verið fast í hendi.
Umræðna var orðin hátt stemmd
„Ég myndi nú ekki kalla þetta vonbrigði. Þetta hefði verið spennandi en ég held að maður geti ekki verið mjög upptekinn af vonbrigðum og væntingum í glímunni við þennan faraldur. Hann er einfaldlega búinn að vera okkar daglega verkefni í ár og verður það enn um sinn og ég held að maður verði svona bara að stilla sínum sveiflum í hóf og sýna bara yfirvegun og þolgæði," segir Svandís.
Svandís segir væntingar sínar hafa verið hóflegar en hún hafi þó orðið vör við spennuna í samfélaginu.
„Umræðan var orðin mjög svona hátt stemmd núna undanfarna daga. Þannig að ég held að það hafi verið svona hærra spennustig sums staðar í samfélaginu en akkúrat hjá mér."
Nú haldi allir sínu striki en bólusetningar eru í fullum gangi. Til að mynda verða nokkur hundruð heilbrigðisstarfsmenn bólusettir í dag.

Meiri hraði á framleiðslu bóluefna
„Við höfum ástæðu til þess að hafa væntingar um það að hraðinn á bóluefni verði meiri á öðrum og þriðja ársfjórðungi heldur en hefur verið á þessum fyrsta og út mars. Tölurnar sem við erum með í höndunum eru í raun og veru bara út mars. Það eru afhendingaráætlanirnar sem við erum með. Ég held enn þá að við getum haldið okkur við þau markmið að það verði búið að bólusetja meirihluta þjóðarinnar hér í sumar."