Tottenham Hotspur vann 2-0 sigur á West Bromwich Albion í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Harry Kane sneri óvænt aftur í byrjunarlið Tottenham en talið var að hann yrði frá í töluvert lengri tíma eftir að hann meiddist á báðum ökklum gegn Liverpool nýverið. Kane og liðsfélagar hans voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér nein almennileg marktækifæri.
Það tók Kane hins vegar aðeins níu mínútur að skora í síðari hálfleik þegar hann fékk frábæra sendingu frá Pierre-Emile Højbjerg inn fyrir vörn WBA. Heung-Min Son bætti svo við öðru marki Tottenham aðeins fjórum mínútum síðar og staðan orðin 2-0.
Fleiri urðu mörkin ekki og þægilegur 2-0 sigur Tottenham staðreynd. Lið José Mourinho er nú með 36 stig í 7. sæti á meðan WBA er í 19. sæti með 12 stig.