Vegna kórónuveirufaraldursins hefur lítið verið um það að áhorfendur mæti á leiki í NBA-deildinni. Í Atlanta í gær máttu þó 1.341 stuðningsmenn heimaliðsins mæta til að sjá Atlanta spila við meistarana úr Englaborginni.
Það var í fjórða leikhluta sem James átti í þrefi við fyrrnefndan áhorfanda sem var rekinn út. James, sem skoraði 12 stig í lokaleikhlutanum og alls 21 stig í leiknum, var ósammála þeirri ákvörðun.
„Það er bara betra að hafa stuðningsmennina á áhorfendapöllunum,“ sagði James brosandi.
„Þegar allt kemur til alls þá er ég bara glaður yfir því að fá stuðningsmenn aftur í húsið. Ég saknaði þessara samskipta. Ég þarf þessi samskipti,“ sagði James.
Courtside Karen was MAD MAD!!
— LeBron James (@KingJames) February 2, 2021
Lakers náðu 16-0 kafla undir lok þriðja leikhluta og í byrjun þess fjórða, en Atlanta minnkaði muninn í 98-97. James setti þá niður þrist, varði skot frá Clint Capela á hinum enda vallarins og setti niður sniðskot úr hraðaupphlaupi í kjölfarið.
Anthony Davis var þó stigahæstur hjá Lakers með 25 stig. Þetta var annar sigur liðsins í röð og eru meistararnir nú með 16 sigra og 6 töp, einu tapi meira en LA Clippers og Utah Jazz sem eru efst í vesturdeildinni.
Úrslitin í nótt:
- Atlanta 99-107 LA Lakers
- Miami 121-129 Charlotte
- Cleveland 100-98 Minnesota
- Chicago 110-102 New York
- Milwaukee 134-106 Portland
- New Orleans 109-118 Sacramento
- Oklahoma 106-136 Houston
- Dallas 108-109 Phoenix
- San Antonio 102-133 Memphis