Íslenski boltinn

„KSÍ er að fá frábæra persónu og frábæran þjálfara“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Breiðabliks tollera Þorstein Halldórsson eftir að liðið varð Íslandsmeistari 2018.
Leikmenn Breiðabliks tollera Þorstein Halldórsson eftir að liðið varð Íslandsmeistari 2018. vísir/daníel

Framkvæmdastjóri Breiðabliks, Eysteinn Pétur Lárusson, segir að Blikar sjái á eftir Þorsteini Halldórssyni en samgleðjist honum jafnframt að vera orðinn þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Eysteini segir að Þorsteinn sé afar fær í sínu starfi.

Þorsteinn þjálfaði kvennalið Breiðabliks með frábærum árangri á árunum 2014-21. Undir hans stjórn urðu Blikar þrisvar sinnum Íslandsmeistarar og tvisvar sinnum bikarmeistarar. Þá komst Breiðablik í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu 2019.

„Að mínu mati er KSÍ að fá frábæra persónu og frábæran þjálfara. Þorsteinn átti farsæl ár hérna,“ sagði Eysteinn við Vísi.

„Hann er ótrúlega þægilegur í alla staði, leggur leiki vel upp og er að mínu uppfyllir hann öll skilyrði sem góður þjálfari þarf að hafa,“ sagði Eysteinn og bætti við teymið í kringum meistaraflokk kvenna hjá Breiðabliki hafi verið mjög öflugt undanfarin ár.

Eysteinn segist ánægður fyrir hönd Þorsteins að fá þetta stóra tækifæri, að þjálfa landslið.

„Ég gef honum mín bestu meðmæli. Það er mikil eftirsjá af honum en þetta er eins og með leikmenn, við stöndum ekki í vegi fyrir því þegar okkar fólk fær tilboð sem því lýst vel á. Það er eftirsjá en auðvitað samgleðjumst honum að fá þetta tækifæri,“ sagði Eysteinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×