Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands kynnti fyrstu niðurstöður rannsókna á breska afbrigðinu í gær. Hann kvað þær benda til þess að afbrigðið gæti verið hættulegra heilsu fólks, leitt til verri veikinda og verið banvænna en önnur afbrigði.
„Þessi skýrsla sem Boris var að vitna í byggir á nokkrum rannsóknum sem hafa verið gerðar víða í Bretlandi. Það er ýmislegt sem bendir til þess að sá möguleiki sé fyrir hendi að þetta afbrigði sé banvænna en það er alls ekki búið að sanna það,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við fréttastofu.
„Í þessari skýrslu er talað um að þessar rannsóknir nái ekki nema til mjög lítils hundraðshluta dauðsfalla, þannig að þessi möguleiki sé fyrir hendi að þessi átta prósent sé ekki rétt úrtak þannig að þetta gæti verið ofmat á því hversu banvænt þetta afbrigði er. En í skýrslunni komast menn að þeirri niðurstöðu að það sé raunverulegur möguleiki að þetta afbrigði sé ekki bara smitnæmara heldur líka banvænna.“
Eðlilegustu viðbrögðin að halda áfram á sömu braut
Kári segir að upp undir fimmtíu hafi nú greinst með afbrigðið hér á landi en Íslendingar hljóti að horfa til þess að það hafi ekki breiðst út.
„Og ég held að eðlilegustu viðbrögðin hjá okkur væru ósköp einfaldlega að halda áfram eins og við höfum gert hingað til, við höfum verið varkár. Og þó að faraldurinn geisi í löndunum í kringum okkur erum við á tiltölulega góðum stað, sem bendir til þess að aðgerðir okkar á landamærum hafi reynst feykilega vel.“
Þannig að það er kannski ekki tilefni til að hræðast þessar niðurstöður mjög?
„Ég held það sé engin ástæða til að hræðast þessar niðurstöður mjög mikið. Þær eru okkur ástæða til þess að vera vakandi, fylgjast vel með því sem er að gerast og fylgjast vel með þeim gögnum sem eru til annars staðar,“ og ítrekar það sem hann hefur áður sagt, að hegðun okkar hafi mun meiri áhrif á útbreiðslu faraldursins en smitnæmi veirunnar.
Önnur afbrigði veirunnar, sem kennd hafa verið við Brasilíu og Suður-Afríku, hafa valdið vísindamönnum áhyggjum. Kári segir að þessi afbrigði hafi ekki greinst hér á landi.
„Nei, og það eru miklu, miklu minni gögn til um þessi afbrigði. Menn hafa velt fyrir sér þeim fræðilega möguleika að suðurafríska afbrigðið gæti sloppið undan ónæmi frá bólusetningu en það eru bara tilgátur.“