Þetta kemur fram í tilkynningu, en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, afhenti Óskari H. Valtýssyni, stofnanda Laka Power, nýverið stuðningsbréf frá íslenskum stjórnvöldum sem ætlað er að auðvelda sókn á erlenda markaði.
„Styrkurinn er hluti af sérstökum stuðningi Evrópusambandsins við nýsköpun þar sem markmiðið er að styrkja þau fyrirtæki sem eiga mesta möguleika á að vaxa á alþjóðlegum mörkuðum. Laki Power er eitt af 38 fyrirtækjum í Evrópu sem hljóta styrkinn eftir strangt matsferli, en alls bárust yfir 4.200 umsóknir og hafa þær aldrei verið fleiri.
Laki Power var stofnað árið 2015 til að þróa uppfinningu Óskars H. Valtýssonar á tæknibúnaði sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma. Úrvinnsla gagnanna fer fram í skýjalausnum sem Laki Power hefur hannað og mun nú leggja áherslu á að þróa enn frekar með tilkomu styrksins,“ segir í tilkynningunni.