Bólusetningar á landinu halda áfram í vikunni þegar tæplega fimm þúsund manns á hjúkrunarheimilum og framlínustarfsmenn fá sína seinni bóluefnasprautu við Covid-19. Þá kom skammtur með bóluefni fyrir þrjú þúsund manns til landsins í morgun að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
Einstaklingar í elstu aldurshópum landsins fá skammtana og sömuleiðis þá skammta sem berast næstu vikurnar.
Hann býst við að búið verði að bólusetja um 30 þúsund manns í lok mars. Í næsta forgangshóp fyrir bólusetningar eru 70 ára og eldri. Í þeim hópi eru um 34 þúsund manns þannig að ekki verður búið að bólusetja allan hópinn þá miðað við þessar upplýsingar.
Aðspurður hvenær von sé á markaðsleyfi fyrir þriðja bóluefninu sem Ísland hefur samið um kaup á gegnum Evrópusambandið svarar Þórólfur.
„Ég býst við að fá upplýsingar um það 29. janúar.“
Þórólfur segir ekki mögulegt að ganga nú til samninga við önnur lyfjafyrirtæki en séu í samningum Evrópusambandið.
„Ráðuneytið gerði samninga við Lyfjastofnun Evrópu. Samkvæmt þeim er Ísland skuldbundið til að kaupa bóluefni í samræmi við samningana. Það er jafnframt skuldbundið til að kaupa ekki bóluefni framhjá þeim samningum. Það er engin vinna í gangi að kaupa bóluefni framhjá þessum samningum,“ segir Þórólfur.
Hann segir að ennþá sé bundið vonir við að hægt sé að gera bóluefnisrannsókn með pfizer hér á landi.
„Eins og fram hefur komið eigum við Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samræðum við Pfizer að hér verði gerð bóluefnisrannsókn. Það hefði þá í för með sér að við fengjum fleiri skammta en nú hafa verið nefndir. Það er ekki komin niðurstaða í það mál,“ segir Þórólfur.
Aðspurður um hvort hann sé vongóður svarar Þórólfur:
„Ég er alltaf ágætlega vongóður já, já.“