Ýmir, sem leikur með Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, er algjör lykilmaður í óhefðbundnum varnarleik íslenska liðsins sem Einar Andri segir að verði alltaf betri og betri.
„Við erum búin að sjá mikla framför á síðasta móti og svo aftur í þessum leikjum,“ sagði Einar Andri í Seinni bylgjunni og vísaði til leikjanna gegn Portúgal í undankeppni EM 2022.
„Menn eru alltaf að komast betur og betur inn í hlutina. Og Ýmir er að nálgast það að verða með betri varnarmönnum í heimi í dag. Hann er stórkostlegur þegar hann stígur upp fyrir framan vörnina og er klára árásir.“
Einar Andri segir augljóst að leikmenn Íslands séu farnir að meðtaka skilaboð Guðmundar Guðmundssonar, hvernig hann vilji hafa varnarleik liðsins.
„Við sjáum að skipulagið og holningin á vörninni er öll miklu betri en þegar við fórum af stað í þessa vegferð með þennan varnarleik. Vörnin hefur verið gagnrýnd á köflum en hún er að verða einn sterkasti þáttur liðsins,“ sagði Einar Andri.
Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á HM í Egyptalandi annað kvöld.

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.