Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa nefnilega báðir náð afrekum Pele að undanförnu. Fyrst tók Messi metið af Pele yfir flest mörk fyrir eitt félag og þá komst Ronaldo upp fyrir hann um helgina á listanum yfir flest mörk á fótboltaferli.
Ronaldo skoraði sitt 757. og 758. mark á ferlinum í sigri Juventus um helgina og komst þar með fram úr Pele sem er með 757. mörk skráð á sig í opinberum keppnisleikjum.
Pele er hins vegar ekki sammála því að Cristiano Ronaldo hafi skorað meira en hann ef marka má Instagram reikning hans.
Blaðamaður ESPN segist hafa tekið eftir því að Pele hafði bætt við nýjum upplýsingum í hausinn á síðunni. Þar stendur nú að Pele hafi skorað 1283 mörk á ferlinum eða fleiri en nokkur annar. Það stóð ekki áður en Ronaldo komst upp fyrir hann.
Santos hafði mótmælt því í síðustu viku þegar Messi átti að vera búinn að skora fleiri mörk fyrir Barcelona en Pele skoraði á sínum tíma fyrir Santos.
Pelé has upgraded his Instagram bio.
— ESPN FC (@ESPNFC) January 4, 2021
Looks like Ronaldo and Messi still have a long way to go pic.twitter.com/ibZ4FEq30X
Ástæðan fyrir þessu er að Pele og Santos telja skoruð mörk í öllum leikjum hversu ómerkilegir sem þessir leikir hafa verið. Þar erum við að tala um alls konar aukakeppnir, vináttleiki og sýningarleiki.
Opinbera talan er aftur á móti allt önnur. Þar er klárt að Pele skoraði bara 757 mörk í viðurkenndum keppnisleikjum með Santos, New York Cosmos og brasilíska landsliðinu.
Hinn áttræði Pele verður bara að sætta sig við það að bæði Lionel Messi og Cristiano Ronaldo og hafa gert enn betur en hann. Messi ætti líka að geta komist upp fyrir Pele yfir heildarmörk á ferlinum.
Cristiano Ronaldo vantar síðan bara tvö mörk í viðbót til að slá met Josef Bican (759 mörk) og verða markahæsti leikmaður allra tíma.