Brynjar og þrír aðrir voru ákærðir í héraðsdómi fyrir að hafa ráðist að þremur í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 19. febrúar 2017. Líkamsárásin náðist að hluta til á myndbandsupptöku og var sú upptaka meginatriði í málinu.
Hinir mennirnir þrír sem ákærðir voru fyrir aðild að málinu voru sakfelldir í héraðsdómi árið 2019. Brynjar var sakfelldur þar sem dómurinn taldi ljóst að hann mætti sjá á upptökum sem náðust af árásinni.
Þremenningarnir sem ráðist var á voru á leið heim af skemmtistað um klukkan fjögur að nóttu þegar hópurinn réðst á þau. Meðal þeirra sem ráðist var á er Eyvindur Ágúst Runólfsson, sonur Runólfs Ágústssonar fyrrverandi rektors við Háskólann á Bifröst. Runólfur skrifaði langan Facebook-pistil stuttu eftir atvikið þar sem hann lýsti því sem gerðist. Auk Eyvindar var ráðist á kærustu hans og vin.
Eyvindur fékk heilablæðingu í kjölfar árásarinnar en hin tvö sluppu með mar og skrámur. Fram kemur í dómnum að konunni hafi verið hrint í vegg og svo niður á jörðina þannig að hún hlaut eymsli yfir hnakka, mar og skrámur.
Hinn maðurinn hafði verið sleginn niður af árásarmönnunum og sparkað í hann liggjandi. Hann sagði fyrir rétti að hann hafi misst meðvitund eftir fyrsta höggið.
Eyvindur varð fyrir árás Brynjars og annars karlmanns sem veittu honum hnefahögg í höfuðið. Fram kemur í dómnum að þeir hafi síðan tekið hann taki og hent honum á vegg þannig að hann skall á veggnum og féll svo í jörðina. Því hafi verið fylgt eftir með spörkum í líkama hans og höfuð með þeim afleiðingum að hann hlaut stóran skurð á höfði, merki um heilamar, heilahristing og fleira.