Erlent

Norð­menn herða reglur: Mest fimm megi koma saman og sala á­fengis bönnuð

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þótt bólusetning sé hafin í Noregi er baráttunni við covid-19 hvergi lokið í Noregi frekar en annars staðar í heiminum. 
Þótt bólusetning sé hafin í Noregi er baráttunni við covid-19 hvergi lokið í Noregi frekar en annars staðar í heiminum.  EPA/Fredrik Hagen

Norsk stjórnvöld hafa boðað til blaðamannafundar nú í kvöld þar sem hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins verði kynntar. Norska blaðið VG greinir frá því að samkvæmt nýjum reglum muni að hámarki fimm koma saman í einkasamkvæmum auk þess sem reglur um sölu áfengis verði hertar.

Smituðum hefur farið fjölgandi í Noregi að undanförnu líkt og víða annars staðar. Samkvæmt frétt VG munu nýjar reglur gilda í að minnsta kosti tvær vikur. Reglurnar feli meðal annars í sér að mest fimm megi koma saman í einkasamkvæmum, mest tíu á viðburðum innanhúss en allt að tvö hundruð þar sem fólk getur setið í merktum sætum.

Eins megi að hámarki tvö hundruð koma saman utandyra en sex hundruð þar sem fólk situr í merktum sætum. Þá mega aðeins tíu koma saman til kirkju og trúarathafna og veitingastöðum verður bannað að selja áfengi.

„Við teljum líklegt að við stefnum í vaxandi fjölda smitaðra,“ segir í tilkynningu heilbrigðisyfirvalda í Noregi. „Það er jafnframt áhyggjuefni að greinst hafa fleiri tilfelli af breska afbrigðinu í Noregi,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Blaðamannafundurinn hefst klukkan sex í kvöld að Norskum tíma, eða núna klukkan fimm að íslenskum tíma. Fylgjast má með fundinum í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×