Bíll bilaði á Kringlumýrarbraut skammt frá bensínstöð N1 við bæjarmörk Kópavogs á fimmta tímanum í dag og olli talsverðum umferðartöfum. Umferð hefur almennt verið þung á höfuðborgarsvæðinu nú síðdegis, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Hrafn Grétarsson hjá umferðardeild lögreglu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að framhjól hafi losnað undan stórum jeppa á Kringlumýrarbraut í suðurátt. Umferð hafi í kjölfarið stöðvast alveg á akreininni lengst til vinstri og nokkur teppa því myndast.
Talsverðan tíma tók að leysa málið en gangur var aftur að komast á umferð á svæðinu nú upp úr klukkan fimm, að sögn Hrafns.
Þá segir hann greinilegt að umferð sé nú að aukast eftir samkomubann síðustu vikur. Stíflur séu byrjaðar að myndast á götum borgarinnar um fjögurleytið á ný, líkt og hefðin býður á virkum dögum þegar fólk heldur heim úr vinnu.