Körfubolti

Sum NBA lið geta hafið æfingar 1.maí

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Úr leik í NBA.
Úr leik í NBA. vísir/getty

Algjört æfingabann hefur verið í NBA deildinni síðan að keppni í deildinni var hætt vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins en nú horfir til bjartari tíma og sjá forráðamenn deildarinnar jafnvel fram á að hægt verði að leika úrslitakeppnina í sumar.

Samkvæmt heimildum Adrian Wojnarowski hjá ESPN munu einhver lið geta hafið æfingar þann 1.maí næstkomandi en þó aðeins þau félög sem staðsett eru á svæðum þar sem vel hefur gengið í baráttunni við faraldurinn og því farið að slaka á aðgerðum vegna hans.

Áður höfðu forráðamenn deildarinnar gefið út að lið myndu fá 25 daga til undirbúnings áður en byrjað væri að keppa að nýju.

Samkvæmt heimildum ESPN verður eingöngu um einstaklingsæfingar að ræða í fyrstu auk þess sem deildin mun hjálpa liðum sem eru staðsett í hringiðu faraldursins að hefja æfingar í einhverju formi.

Ekki hefur verið leikið í deildinni síðan þann 11.mars síðastliðinn og engin áform verið gefin út hvort deildarkeppnin verði kláruð eða hvort stefnt sé að því að fara beint í úrslitakeppni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×