Efla þarf viðhaldsmeðferð fólks með alvarlegan vímuefnavanda hér á landi. Verkefnastýra Frú Ragnheiðar, skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins, segir að þurrkur sé að myndast á ólöglega vímuefnamarkaðinum vegna faraldursins.
Samkvæmt upplýsingum frá Svölu Jóhannsdóttur, verkefnastýru Frú Ragnheiðar, hefur dregið verulega úr framboði á OxyContin, Fentanyl, Contalgin og kókaíni hér á landi frá því að kórónuveiran breiddist um heimsbyggðina en ferðafrelsi setur mark sitt á að ólöglegum lyfjum og fíkniefnum sé smyglað til landsins.
Rauði Krossinn á Íslandi hefur miklar áhyggjur af vímuefnaneytendum í viðkvæmasta hópi samfélagsins vegna kórónuveirunnar. Verklagi hefur verið breytt en skimað er eftir einkennum veirunnar símleiðis.
Svala sagði í Víglínunni á Stöð 2 í dag að eftir tvær vikur, eða um það leiti sem kórónuveirufaraldurinn væri að ná hámarki hér á landi, verði töluverður skortur á morfínskyldum lyfjum.
„Þegar skortur er á framboði en eftirspurnin er sú sama bitnar það verst á fólki með veikasta vímuefnavandann. Hann verður útsettur fyrir meiri hörku og neyð og misnotkun.“
Svala segir að við þær aðstæður sem nú ríki í þjóðfélaginu væri skynsöm viðbrögð yfirvalda að auka viðhaldsmeðferð fyrir þennan hóp samfélagsins. „Af því að við erum að fá símtöl næstum því daglega núna og höfum gert síðustu viku og fólk er að óska eftir aðstoð við að komast í viðhaldsmeðferð en því miður er staðan í landinu þannig að það eru biðlistar alls staðar og af því að við erum að fara þá leið að fólk þurfi fyrst að fara í innlögn þá er mjög erfitt að koma fólki í viðhaldsmeðferð á Íslandi.“
„Þetta er hópur sem sækir mjög illa heilbrigðisþjónustu og hefur í raun mjög skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu þannig að úrræði eins og Frú Ragnheiður og öll önnur vettvangsþjónusta þarf núna á þessum tíma að halda eins miklu sambandi við þennan afar jaðarsetta hóp eins og hægt er. Þannig að við leggjum mikla áherslu á að Frú Ragnheiður gangi sex kvöld í viku og á daginn erum við í miklu símasambandi við okkar fólk,“ segir Svala.