Erlent

Yfir tíu þúsund látnir á Ítalíu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hvergi hafa fleiri látist en á Ítalíu sökum kórónuveirunnar.
Hvergi hafa fleiri látist en á Ítalíu sökum kórónuveirunnar. Getty/Diego Puletto

Staðfest dauðsföll af völdum kórónuveirunnar eru orðin meira en 10 þúsund talsins á Ítalíu og 889 dóu af völdum veirunnar síðasta sólarhringinn. Fjöldi dauðsfalla vegna veirunnar hefur aldrei verið meiri á einum degi frá því veiran barst til Ítalíu þann 21. febrúar síðastliðinn.

Dauðsföllin eru nú orðin 10.023 á Ítalíu og greindust um sex þúsund manns með veiruna í dag en nú eru staðfest smit á Ítalíu orðin 92.472. Flest smit hafa þó greinst í Bandaríkjunum en þau eru orðin 121.043 þar í landi.

Yfirvöld segja ekki loku fyrir það skotið að útgöngubann verði framlengt en jafnframt væri ástandið enn verra hefði það ekki verið sett á.

„Án þessara aðgerða væru tölurnar enn hætti og ástand heilbrigðiskerfisins væri enn dramatískara. Við værum í ófremdarástandi,“ sagði Angelo Borelli, yfirmaður Almannavarna á Ítalíu. 

Ítalía var fyrst Vesturlanda til að setja á samkomubann og önnur höft á ferðir fólks en þar hafa höftin orðið æ strangari frá því faraldurinn barst þangað fyrir fimm vikum síðan. Vonir um að ferðahöftum verði létt á föstudaginn næsta hafa farið dvínandi.

Í Langbarðalandi, sem er einna verst farið vegna veirunnar, létust 542 í dag vegna hennar og eru staðfest dauðsföll því orðin 5.944 í héraðinu.


Tengdar fréttir

Hvergi fleiri látist vegna veirunnar en á Ítalíu

Um 320 þúsund manns hafa nú greinst með kórónuveiruna um allan heim en hún breiðist hratt út. Stjórnvöld hafa víða hert aðgerðir til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Hvergi hafa fleiri látist af völdum veirunnar en á Ítalíu.

Af hverju Ítalía?

Hár aldur ítölsku þjóðarinnar, samskiptamynstur milli kynslóða og vágesturinn sem kannski fór huldu höfði til að byrja með gætu verið sumar ástæður þess að faraldur kórónuveiru hefur farið einna hörðustum höndum um Ítalíu síðustu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×