Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg og ríki hafa greitt atkvæði um kjarasamninga sem undirritaðir voru í byrjun mars. Báðir samningar voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta. Enn hefur ekki náðst samningur milli félagsmanna Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sjá einnig: Ótímabundnu verkfalli félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg aflýst
Fram kemur í tilkynningu frá Eflingu að af þeim 777 sem greiddu atkvæði um Reykjavíkurborgarsamninginn sögðu 92% já og 6% nei. 2% tóku ekki afstöðu. Alls voru 1858 á kjörskrá og kjörsókn því 42%.
Af þeim 72 sem greiddu atkvæði um ríkissamninginn sögðu 96% já og 3% sögðu nei. 1% tók ekki afstöðu. Alls voru 545 á kjörskrá og kjörsókn því 13%.
Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð frá hádegi mánudaginn 23. mars til hádegis í dag föstudaginn 27. mars.
Sjá einnig: Samið um allt að 112 þúsund króna hækkun
„Niðurstaðan felur í sér staðfestingu á því að mikilvægt skref hefur verið stigið í leiðréttingu lægstu launa. Stoltust er ég af að hafa tekið þátt í því að auka virðingu og kjör láglaunakvenna í sögulega vanmetnum störfum. Þessir samningar eru sannarlega eftirtektarvert innlegg í baráttu láglaunakvenna fyrir að vera metnar að verðleikum. Um leið vil ég taka fram að baráttan heldur áfram. Næsti slagur felst í því að ná samsvarandi samningum fyrir félaga okkar hjá hinum sveitarfélögunum. Svo höldum við áfram að ryðja brautina fyrir betra lífi fyrir okkar fólk,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í tilkynningu.