Fyrr í dag greindum við frá því að Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, væri á leið til franska stórliðsins Lyon. Hún vill þó ekki staðfesta vistaskiptin en hún er þó á leið frá þýska félaginu Wolfsburg í sumar eftir fjögur farsæl ár.
RÚV heyrði í Söru Björk varðandi vistaskiptin en Lyon er án efa stærsta og besta lið Evrópu en liðið hefur unnið Meistaradeild Evrópu síðastliðin fjögur ár.
„Eins og staðan er núna þá ætla ég ekki að staðfesta neitt. Það eru búnir að vera einhverjir orðrómar í fréttum en ekkert sem ég ætla að kommenta á núna,“ sagði Sara Björk í viðtalinu. Hún viðurkenndi þó að það væri mikill heiður að vera orðuð við stórlið á borð við Lyon.
„Þetta er bara besta liðið í heiminum og auðvitað má maður vera það.“
Lyon er í raun rökrétt skref upp á við fyrir Söru sem hefur verið í lykilhlutveri hjá Wolfsburg síðan hún kom til liðsins fyrir fjórum árum. Hefur liðið unnið þýsku úrvalsdeildina undanfarin þrjú ár og farið langt í Meistaradeild Evrópu sama tíma.
„Ég var búin að ákveða að framlengja ekki samningnum við Wolfsburg eftir sumarið þannig að ég er að fara í sumar. Frakkland, England og Spánn eru spennandi kostir. Á Englandi er mikil þróun í kvennaknattspyrnunni en svo sér maður að allar þessar deildir eru að stækka og verða betri.“
Það verður forvitnilegt að sjá hvort Sara Björk fari til Lyon en þar með væri hún komin í fámennan hóp íslenskra íþróttamanna sem hafa leikið með bestu liðum Evrópu, og jafnvel heims, í sinni íþrótt.