Stórlega hefur dregið úr umferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu eftir að hratt fór að draga úr flugumferð fyrr í mánuðinum. Framkvæmdastjóri Isavia ANS segir þessa krísu ólíka þeirri sem skapaðist vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri Isavia ANS sem rekur meðal annars alþjóðaflugstjórnarmiðstöðina á Reykjavíkurflugvelli segir að flugumferð á svæðinu hafi verið eðlileg fram til 13. mars miðað við fyrri ár.
En á þessum árstíma sé eðlilegt að um 450 flugvélar fari um svæðið á sólarhring.
„Í gær fóru hins vegar aðeins 156 flugfélar um flugstjórnarsvæðið á þeim sólarhring," segir Ásgeir.
Umferðin hefur því dregist saman umsextíu og fimm prósent á tíu dögum.
Ásgeir segir mestu muna um samdrátt í flugi milli Evrópu og Bandaríkjanna og síðan mikinn samdrátt í flugi um Keflavíkurflugvöll.
Þar hefur hefur komum og brottförum fækkað um rúmlega fjórðung síðustu daga.

Ásgeir segir þetta ástand ólíkt því þegar flugumferð raskaðist vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og eldgossins í Eyjafjallajökli vegna þess að þá hafi ekki ríkt sú óvissa vegna heilsu starfsmanna og mögulegrar sóttkvíar þeirra og nú ríki.
Sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar vegna þessarrar stöðu og Isavia ANS sé einbeitt í að komast í gegnum þetta ástand með allri nauðsynlegri þjónustu við alþjóðaflugið.