Lögregla á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda útkalla í nótt þar sem tilkynnt hafði verið um hávaða vegna samkvæma í heimahúsum.
Í dagbók lögreglu segir að farið hafi verið í níu slík útköll víðs vegar um höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Einnig segir frá því að leigubílstjóri hafi óskað eftir aðstoð lögreglu í hverfi 104 um klukkan 00:40 vegna farþega sem hafi neitað að greiða fyrir aksturinn.
Skömmu eftir miðnætti hafði vagnstjóri hjá Strætó óskað eftir aðstoð í Mosfellsbæ vegna farþega sem var til vandræða í vagninum. Var farþeganum vísað út.
Um kvöldmatarleytið í nótt var svo óskað eftir aðstoð í verslun í hverfi 108 vegna þjófnaðar og upp úr klukkan 23 var tilkynnt um þjófnað í verslun í hverfi 105.
Loks segir að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.