Handbolti

Varaði Ólaf, Teit og félaga við að skrifa undir | „Lygar og blekkingaleikur“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Guðmundsson er fyrirliði Kristianstad og hefur fagnað fjölda titla með félaginu.
Ólafur Guðmundsson er fyrirliði Kristianstad og hefur fagnað fjölda titla með félaginu. VÍSIR/EPA

Sænska handknattleiksstórveldið Kristianstad hugðist frá og með morgundeginum byrja að nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda til að stórlækka launakostnað sinn.

Ólafur Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson eru leikmenn Kristianstad sem fundið hefur vel fyrir efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar, eins og svo mörg önnur íþróttafélög. Úrslitakeppnin í Svíþjóð var blásin af vegna veirunnar.

Samkvæmt Aftonbladet fela neyðaraðgerðir stjórnvalda í sér að hægt sé að hálfpartinn „taka“ starfsmenn af hefðbundinni launaskrá félaga í ákveðinn tíma en að þeir fái 90% venjulegra mánaðarlauna sinna áfram greidd með aðstoð bótasjóðs, þó að hámarki 44.000 sænskar krónur. Kristianstad tilkynnti leikmönnum á föstudag að félagið ætlaði að nýta sér þetta ráð en það féll illa í kramið hjá leikmannasamtökum:

„Þetta eru lygar og blekkingaleikur. Staðreyndin er að það er ekkert samkomulag í höfn á milli samtaka vinnuveitenda og starfsmannasamtaka um að hægt sé að færa leikmenn af launaskrá tímabundið,“ sagði Martin Klette, lögfræðingur leikmannasamtakanna í Svíþjóð. „Maður getur ekki verið á undan regluverkinu. IFK Kristianstad getur ekki búið til sínar eigin reglur,“ sagði Arne Johansson, formaður samtaka handboltamanna í Svíþjóð.

Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson er með samning við Kristianstad sem gildir til ársins 2022.VÍSIR/EPA

Klette segir leikmenn Kristianstad ekki hafa samþykkt áætlanir félagsins af fúsum og frjálsum vilja. Þeir verði að gæta þess hvað þeir skrifi undir enda geti þeir verið að fórna 20% launa sinna. Það sé í góðu lagi að þeir taki á sig launalækkun vegna stöðunnar en bara ef þeir vilji það sjálfir.

Undir kvöld fékk Aftonbladet svo svör frá forráðamönnum Kristianstad, eftir að hafa birt frétt um málið, þar sem fullyrt var að félagið myndi ekki fara gegn neinum reglum eða lögum. Félagið væri hins vegar í startholunum og tilbúið að nýta sér úrræðið þegar allt væri komið á hreint. Leikmenn fengu svo skilaboð frá stjórn félagsins í kvöld þar sem beðist var afsökunar á því að hlutirnir hefðu verið settir fram á rangan hátt og að aldrei hefði staðið til að þvinga leikmenn til að skrifa undir neitt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×