Martin Schwalb, nýr þjálfari Rhein-Neckar Löwen, hefur greinst með kórónuveiruna.
Tveir leikmenn Löwen eru með veiruna, Mads Mensah Larsen og Jannick Kohlbacher, og allt liðið er í sóttkví.
Íslensku landsliðsmennirnir Alexander Petersson og Ýmir Örn Gíslason leika með Löwen.
„Hingað til hefur mér liðið vel. Ég vil biðja fólk um að fara eftir öllum fyrirmælum yfirvalda í þessu ástandi. Jafnvel þótt þú finnir ekki fyrir einkennum geturðu verið smitberi og þ.a.l. stofnað samborgurum þínum í hættu,“ sagði Schwalb.
Hann var ráðinn þjálfari Löwen í lok febrúar eftir að félagið sagði Kristjáni Andréssyni upp störfum.
Löwen er í 6. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Ekki hefur verið leikið í henni síðan 8. mars.