Rúmlega 230 íbúar í Húnaþingi vestra eru nú í sóttkví eftir að fyrsta Covid-19-smitið greindist í sveitarfélaginu í gær. Um fimmtungur íbúa sveitarfélagsins er því í sóttkví og varar sveitarstjórinn við skertri starfsemi hjá stofnunum þess.
Starfsmaður grunnskólans á Hvammstanga greindist smitaður af kórónuveirunni í gær og hefur skólahald verið fellt niður um óákveðinn tíma vegna þess. Á vefsíðu Húnaþings vestra kemur fram að 57 einstaklingar hafi farið í sóttkví vegna þess í gærkvöldi en þeim hafi fjölgað verulega í dag. Alls eru 130 heimili í sveitarfélaginu í sóttkví.
Kaupfélag Vestur-Húnvetninga auglýsti að verslunin þyrfti að skerða þjónustu og stytta opnunartíma í dag. Á næstu dögum er búist við því að fleiri þurfi að skerða þjónustu í sveitarfélaginu.
„Með því að fara að öllu eftir leiðbeiningum stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda ásamt því að sýna almenna skynsemi mun okkur takast að sigrast á þessari áskorun sem og öllum öðrum,“ segir í tilkynningunni sem Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri, skrifar undir.