Í þessum mánuði fer í loftið ný sjónvarpsstöð, Stöð 2 ESPORT, sem sýna mun frá keppni í rafíþróttum á Íslandi.
Stöð 2, Rafíþróttasamtök Íslands og Skjáskot hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf sín á milli um uppbyggingu á rafíþróttum á Íslandi. Samstarfið felur meðal annars í sér aðstoð við framleiðslu og dreifingu á útsendingum frá fyrsta tímabili Vodafone deildarinnar sem hefst í lok mars. Þar keppa lið á borð við Fylki, Dusty, KR og FH í leikjunum Counter Strike og League of Legends.
Formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, Ólafur Hrafn Steinarsson, er ánægður með samstarfið og talaði um að hér væri um vendipunkt í íslenskum rafíþróttum að ræða. „Það er náttúrulega frábært að fá aðila eins og Stöð 2 og Vodafone með okkur í þessa vegferð, að kynna rafíþróttir sem gilt áhugamál og byggja upp flott umhverfi í kringum iðkun og keppni þess á Íslandi.“
Framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2, Þórhallur Gunnarsson, segist hafa botnlausa trú á þessu verkefni enda séu rafíþróttir mest vaxandi íþróttagrein í sjónvarpi í dag. „Við setjum í gang nýja sjónvarpsrás ESPORT sem við erum sannfærð um að slái í gegn. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í þessu sporti.“